Trússaði og leiðsagði fyrir Úti-Hamrinn fyrir norðan.
Úti-Hamarinn er verkefni á vegum ungmennahússins Hamarsins í Hafnarfirði. Markmið verkefnisins er reglulegar gönguferðir og fjallgöngur með ungmenni á aldrinum 16-24 ára í uppland höfuðborgarsvæðisins á þriggja mánaða tímabili á vorin. Jafnframt sjósund og kajak-siglingar. Tilgangur verkefnisins er að kynna ungmenni fyrir útivist og náttúru Íslands.
Verkefninu líkur á nokkurra daga ferð út á land. Þetta er þriðja árið sem verkefnið er starfrækt en áður hefur hópurinn gengið Fimmvörðu háls og gist í Þórsmörk. Gengið á jökla í Öræfum og gist í Skaftafellssýslu. Og nú norður í Vaglaskóg, gengið í umhverfi skógarins, sem og í Dimmuborgum og á Hverfjall. Alls voru 22 ferðalangar (ásamt Tófu, hundinum mínum) í hópnum í einni rútu ásamt mini-bus auk þess sem ég ók bílnum mínum með tjaldvagn, vistir ofl.
Fyrri daginn gekk hópurinn frá bílastæðinu við Dimmuborgir; í gegn um borgirnar um göngustíg í átt að Hverfjalli. Leiðin er stikuð og greiðfær. Þegar komið var að fjallinu gekk hópurinn upp á gýgbarminn að sunnanverðu; í hálfhring og niður norðan megin; og til baka að bílnum. U.þ.b. 9 km.
Seinni daginn gekk hópurinn frá tjaldstæðinu í Vaglaskógi; í gegn um skóginn og að bænum Vöglum. Þaðan til baka, u.þ.b. 5,5 km.
Veðrið var afskaplega gott báða dagana og hópnum miðaði vel áfram. Segja má að vel hafi tekist til og vonandi hefur ferðin kveikt áhuga einverra ungmennanna. Á svona ferðalagi gefst tækifæri til að fræða og ræða allskonar hluti í umhverfi okkar og náttúrunni. Allavegana var hópurinn glaður og ánægður.
No comments:
Post a Comment