Tuesday, August 8, 2023

#36 Tröllakirkja Mýrum

 Gekk Vatnaleiðina (lauslega) samkvæmt leiðarlýsingu í samnefndri bók FÍ. Lagði upp frá Hreðarvatni í vestur átt og gekk s.k. "Tjaldleið" norður fyrir vötnin en "Skálaleið" í austur átt og suður fyrir vötnin með útúrdúrum. Tófa var vitanlega með mér og við gistum í tjaldi. Gangan var þrír dagar og hefði mátt vera deginum lengri en þá hefði ég þurft að hafa með meiri vistir.

Í leiðinni var Tröllakirkja (941 m) sem ég stóðst ekki að klífa enda talið upp í bók ATG yfir áhugaverð fjöll á Íslandi eins og fram hefur komið og ég hef einsett mér að ganga á. 

Tófa var þreytt þegar upp var komið.





Monday, July 31, 2023

Á Sveinstind ...aftur

Breki á leið upp Sveinstind. Langisjór í bakgrunni.


Gekk á Sveinstind með Margréti og Breka og vinafólki okkar um helgina. Hundarnir voru vitanlega með í för, Móa og Tófa. Geng helst ekki aftur og aftur á sama fjallið heldur reyni fremur að kynnast nýjum fjöllum. En hjá því verður stundum ekki komist líkt og í þessu tilfelli. Og, í góðu veðri og góðu skyggni er vel þess virði að ganga ítrekað á fjallið því hvergi hef ég séð betra útsýni á Íslandi. 

Gangan gekk vel þótt sumir hafi fundið fyrir lofthræðslu.


Monday, July 10, 2023

#35 Einhyrningur

Árið 2019 einsetti ég mér að ganga á öll fjöllin og alla tindana í bók Ara Trausta Guðmundssonar og Péturs Þorleifssonar: "Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind" (hér eftir ATG151). Ég man ekki hvernig þetta kom til en mig minnir að ég hafi lesið um einhvern sem hafði gert þetta. En ég þurfti áskorun og hvatningu, og verkefni í minni útivist á þeim tíma. Þegar þetta er skrifað hef ég gengið á 35 af þeim 151 fjalli sem talin eru upp í bókinni. 

Sum fjöllin hafði ég gengið á áður og önnur þeirra margsinnis, einkum þau sem eru næst höfuðborgarsvæðinu. En einnig sum þeirra sem eru fjarri líkt og Snæfellsjökul, Hvannadalshnjúk og Snæfell. Eftir sem áður setti ég mér að markmiði að ganga á öllu fjöllin og sum þeirra aftur.

Þegar ég hóf verkefnið gerði ég mér vonir um að verkefnið tæki mig 5 ár en nú er fyrir löngu ljóst að það var óraunhæft. Þetta gekk vel í fyrstu þegar ég gat einbeitt mér að fjöllum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. En eftir því sem ég lauk þeim fækkaði eðlilega kostunum og vegalengdir urðu lengri. Þá hægði á framgangnum. En til þess að halda áfram með fjöllin reyni ég nota ferðir út á land og ganga í leiðini.  

Um helgina dvaldi í góðu veðri í tjaldvagninum með Margréti og Breki í Fljótshlíð. Þá hugsaði ég mér gott til glóðarinnar og halda áfram að ganga fjöllin í ATG151. Ekki fjarri tjaldsvæðinu er Einhyrningur og á hann gekk ég á sunnudaginn í rjómablíðu ásamt Tófu.

Einhyrningur, séð frá Einhyrningsflötum

Við Tófa. Tilraun til (sjálfs) myndatöku. Tindfjöll í baksýn
.
Horft til suðurs og Eyjafjallajökull í baksýn.

Horft til vesturs og Tindfjöll í Baksýn.

Horft til norðurs og miðhálendið í baksýn


                                                               

Thursday, June 29, 2023

Með Úti-Hamrinum: Vaglaskógur og Dimmuborgir

 Trússaði og leiðsagði fyrir Úti-Hamrinn fyrir norðan. 

Á Hverfjalli. Mývatn í bakgrunni (mynd DAS)

Við bæinn Vaglir (mynd DAS)

Úti-Hamarinn er verkefni á vegum ungmennahússins Hamarsins í Hafnarfirði. Markmið verkefnisins er reglulegar gönguferðir og fjallgöngur með ungmenni á aldrinum 16-24 ára í uppland höfuðborgarsvæðisins á þriggja mánaða tímabili á vorin. Jafnframt sjósund og kajak-siglingar. Tilgangur verkefnisins er að kynna ungmenni fyrir útivist og náttúru Íslands. 

Verkefninu líkur á nokkurra daga ferð út á land. Þetta er þriðja árið sem verkefnið er starfrækt en áður hefur hópurinn gengið Fimmvörðu háls og gist í Þórsmörk. Gengið á jökla í Öræfum og gist í Skaftafellssýslu. Og nú norður í Vaglaskóg, gengið í umhverfi skógarins, sem og í Dimmuborgum og á Hverfjall. Alls voru 22 ferðalangar (ásamt Tófu, hundinum mínum) í hópnum í einni rútu ásamt mini-bus auk þess sem ég ók bílnum mínum með tjaldvagn, vistir ofl. 

Fyrri daginn gekk hópurinn frá bílastæðinu við Dimmuborgir; í gegn um borgirnar um göngustíg í átt að Hverfjalli. Leiðin er stikuð og greiðfær. Þegar komið var að fjallinu gekk hópurinn upp á gýgbarminn að sunnanverðu; í hálfhring og niður norðan megin; og til baka að bílnum. U.þ.b. 9 km. 




 Seinni daginn gekk hópurinn frá tjaldstæðinu í Vaglaskógi; í gegn um skóginn og að bænum Vöglum. Þaðan til baka, u.þ.b. 5,5 km. 

 

Veðrið var afskaplega gott báða dagana og hópnum miðaði vel áfram. Segja má að vel hafi tekist til og vonandi hefur ferðin kveikt áhuga einverra ungmennanna. Á svona ferðalagi gefst tækifæri til að fræða og ræða allskonar hluti í umhverfi okkar og náttúrunni. Allavegana var hópurinn glaður og ánægður.


Wednesday, June 28, 2023

Ferðabók

Ég skráði mig í fjallamennskunám í Fjölbrautarskóla Austur Skaftafellssýslu (FAS) sem hefst í ágúst. Liður í náminu er að fara ferðir á eigin vegum og halda um þær dagbók eða skrá. 

Þegar þetta er skrifað hef ég ekki fengið leiðbeiningar um hvernig skuli staðið að ferðunum eða skráningu þeirra. Hins vegar hef ég ákveðið að hefjast þegar handa við ferðabók fram að því að skólinn hefst.

Birt með fyrirvara um að ferðirnar séu gjaldgengar og rétt skráðar. Ella felli ég þær út síðar. 






#36 Tröllakirkja Mýrum

 Gekk Vatnaleiðina (lauslega) samkvæmt leiðarlýsingu í samnefndri bók FÍ. Lagði upp frá Hreðarvatni í vestur átt og gekk s.k. "Tjaldlei...